Meira um Seyðisfjörð

„Made up of multicoloured wooden houses and surrounded by snowcapped mountains and cascading waterfalls, obscenely picturesque Seyðisfjörður is the most historically and architecturally interesting town in east Iceland.“ –lonelyplanet

 

Seyðisfjörður hlykkjast langur, lygn og djúpur, 17 km frá ystu nesjum inn í fjarðarbotn þar sem kaupstaðurinn hjúfrar sig í háu skjóli Bjólfs og Strandartinds. Í dalverpinu inn af bænum fellur Fjarðará í ótal fallegum fossum af heiðarbrún og niður í Lónið innst í firðinum. Upp með ánni liggur þjóðvegurinn til héraðs, 26 km um Fjarðarheiði sem áður fyrr var verulegur farartálmi en er nú farinn á tæpum hálftíma á góðum vegi og veitir ferðalöngum fegursta útsýni til allra átta. Stafirnir, en svo nefnist vegurinn af Fjarðarheiðarbrún niður með Fjarðará, er einn tilkomumesti akvegur á landinu.

Fjarlægð frá Reykjavík: 679 km

Seyðisfjörður er af mörgum talinn fegursti bær landsins, ekki bara sökum einstakrar legu sinnar heldur líka vegna þess að hvergi á Íslandi er að finna jafn heillega byggð gamalla timburhúsa. Matthías Johannessen skáld orðaði þetta þannig að Seyðisfjörður væri Perla í lokaðri skel.

Upphaf bæjarins má eins og upphaf annara verslunarstaða rekja til erlendra kaupmanna, einkum danskra, sem hófu þar verslun um miðja 19. öld. En það sem skipti sköpum fyrir vöxt staðarins og viðgang var síldarævintýri Norðmanna á Íslandi frá 1870-1900. Þeir byggðu upp fjölda síldarstöðva í bænum sem breyttist á fáeinum árum úr litlu bændasamfélagi í athafnabæ sem fékk svo kaupstaðarréttindi árið 1895.

Á öndverðri 19. öld þróaðist ný tækni í byggingariðnaði í Noregi. Í sögunarmyllunum var farið að framleiða tilbúin hús til útflutnings um allan heim. Seyðfirskir athafnamenn með mikil tengsl við Noreg gripu tækifærið og reistu glæsileg og afar vönduð hús, bæði einbýlishús, verslanir og opinberar byggingar. Mörg þessara húsa standa enn og setja svipmót aldamóta á bæinn. Saga húsa og byggðar er gerð aðgengileg fyrir gesti í litlum bæklingi er nefnist Gengið um gamla bæinn. Þar er á skýran hátt gert grein fyrir þróun bygginga og byggðar. Bæklinginn er hægt að nálgast í Upplýsingamiðstöðinni.

Um þessar mundir eru íbúar Seyðisfjarðar 653 talsins (1. des 2016). Grundvöllur mannlífsins er sjávarútvegur og ferðaþjónustan setur æ meiri svip á bæjarlífið, enda umgjörð gamalla húsa og mikilfenglegrar náttúru hin ákjósanlegasta.

Farþega- og bílferjan Norræna, sem hefur haldið uppi siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu síðan 1975, leggst að bryggju á Seyðisfirði vikulega allan ársins hring.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að tengja móttöku ferðamanna sögunni, menningu og listum. Miðstöð þessarar starfsemi er í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli. Þar er jafnframt til húsa glæsilegur myndlistarsalur. Alþjóðlegar jafnt sem innlendar myndlistarsýningar prýða þar sali flesta daga ársins. Auk þess eru í húsinu [email protected], Bistro og vinnustofa listamanna.

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar.

LungA, listahátíð ungs fólks, er haldin á Seyðisfirði í júlí ár hvert. Á dagskrá eru fjölbreyttar listasmiðjur sem starfræktar eru frá þriðjudegi til laugardags, fjölbreyttir viðburðir, s.s. tónleikar, uppskeruhátíð smiðjanna, myndlistarsýningar, leiksýningar og fleira og fleira.

Ýmis gagnleg símanúmer

Heilsugæsla: 470-3060

Neyðarnúmer: 112

Upplýsingamiðstöð: 472-1551

Seyðisfjarðarkaupstaður: 470-2300

Skaftfell Menningarmiðstöð: 472-1632

Rúta (yfir Fjarðarheiði): 472-1515